Leikfélag Sauðárkróks er eitt elsta áhugamannaleikfélag á landinu. Það var stofnað 13. apríl 1888, þrátt fyrir óáran til sjós og lands, eins og segir í Skagfirzkum annál. Stofnendur voru 16 talsins og markmið félagsins voru gagn og skemmtun. Félagið stóð fyrir leiksýningum um árabil og þá helst í Sýslufundavikunni. Það lognaðist þó smám saman útaf. Samt var alltaf leikið á Sauðárkróki, Stúkan, Kvenfélagið og fleiri sáu til þess. 9. janúar 1941 var Leikfélag Sauðárkróks stofnað á ný í Bifröst. Að þessu sinni voru stofnfélagar 40 talsins. Fyrsta stjórnin var skipuð þeim Eyþóri Stefánssyni, Pétri Hannessyni og Kristjáni C. Magnússyni.