Leikfélagið hefur hafið æfingar á hinni sívinsælu Ávaxtakörfu eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur, í leikstjórn Sigurlaugar Vorsísar Eysteinsdóttur. Tónlistin í verkinu er eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson. Frumsýning er áætluð 15. október nk.
„Sögusviðið er ávaxtakarfa og persónur leikritsins eru ýmis konar ávextir, ásamt einu jarðarberi og gulrót sem lendir fyrir misskilning í körfunni. Jarðarberið þarf að þola mikið harðræði frá ávöxtunum sem leggja hana í einelti en þegar gulrótin birtist skyndilega í körfunni snúast ávextirnir gegn henni. Þar sem ávextirnir og grænmetið er mjög ólíkt í útliti er auðvelt að sjá hvernig fordómar myndast á meðal ávaxtanna og ekki síst þegar gulrótin kemur í viðbót og er allt öðruvísi og skapar samstöðu á meðal þeirra. Gulrótin verður þannig fyrir fordómum ávaxtanna í garð grænmetis en smám saman opnast augu þeirra fyrir því að útlitið er ekki það sem skiptir máli, heldur innrætið og allir verða jafnir í lokin,“ segir um verkið á leiklistarvefnum, leiklist.is.
„Ávaxtakarfan er algjörlega frábært tímalaust barnaleikrit sem er alltaf jafn skemmtilegt. Leikfélagið setti það einmitt á svið fyrir 20 árum síðan og það verður ekki síður spennandi að setja það upp í ár,“ segir Silla leikstjóri í léttu spjalli við heimasíðuna.Hún segir það hafa verið algjört leikstjóra-lúxus-vandamál að manna leikritið þar sem 16 hæfileikaríkir og glæsilegir leikarar tóku prufu en einungis níu leikhlutverk voru í boði. „Að mínu mati sennilega eitt erfiðasta hlutverk leikstjórans er að geta ekki haft alla á sviði sem vilja en blessunarlega eru afar mörg mikilvæg hlutverk við uppsetningu á einni leiksýningu og allur leikhópurinn sýnir strax mikla og jákvæða orku, hugmynda auðgi, samheldni og samvinnu og kraft í sköpun og gleði.
Ávaxtakarfan er nefnilega uppfull af húmor, fjöri og skemmtilegum persónum en jafnframt gætt fallegum og einlægum en afar einföldum boðskap sem á alltaf við - berum virðingu fyrir öllum og verum góð hvert við annað. Tónlistin dreifir síðan skrautsykri yfir allt með dillandi danstakti, gæsahúðar melódíum og gleði.“
Frumsýningin er áætluð 15. október og segir Silla að leikhúsgestir, stórir sem smáir, megi búast við mögnuðum leik og söng, mikilli innlifun og leikhústöfrum sem mun vonandi fylgja öllum heim.