Búast má við hamagangi á Hóli

Valgeir á frumsýningu Litlu hryllingsbúðrinnar 2024.
Valgeir á frumsýningu Litlu hryllingsbúðrinnar 2024.

„Velkomnir í Síkið!“ er sungið hátt þegar körfuboltaleikir eru háðir á Sauðárkróki en við segjum bara við Valgeir Skagfjörð, leikstjóra, „Velkominn á Krókinn!“. Þegar um tvær vikur eru í frumsýningu var Valgeir fenginn til að svara nokkrum spurningum um hans hagi og verkefnið hjá Leikfélaginu.

Við byrjum á að spyrja hvernig Skagafjörður taki á móti leikstjóranum og eins og við er að búast tekur hann vel á móti nafna sínum.
„Skagafjörður tekur afskaplega vel á móti mér og hefur alltaf gert,“ segir hann.

Ár er síðan Valgeir var á Króknum síðast þegar hann leikstýrði Litlu hryllingsbúðinni við góðan orðstír. Þá sýndi hann hve fær leikstjóri hann er og setti upp glæsilega sýningu sem gekk afar vel. Valgeir er eftirsóttur leikstjóri og ekki sjálfgefið að ná honum í leikstjóraverkefni en hann hefur nýlokið við að leikstýra á Húsavík og þar áður var hann að leikstýra hjá Sjónleikarfélaginu í Tórshavn í Færeyjum.

En hvernig skyldi hafa gengið að manna hlutverk og æfa fyrir Sæluvikuleikrit ársins?
„Það hefur gengið vel að mestu. Þurfti að breyta byrjunarliðinu aðeins en nú er vel skipað í hverja stöðu,“ svarar hann. Fleiri breytingar urðu reyndar frá upphaflegu plani því nafninu á leikritinu var breytt úr Með táning í tölvunni í Flæktur í Netinu.
Hver er sagan þar á bak við?

Frá æfingu áður en sviðsmynd var komin upp.„Okkur fannst Táningurinn ekki alveg vera málið þar sem leikritið fjallar ekkert um táninga í tölvum nema að mjög litlu leyti. Aðalpersónan flækist hins vegar í netinu og þess vegna ákváðum við í sameiningu að sýna leikritið Flæktur í netinu,“ segir Valgeir og bætir við: „Þetta er dæmigerður farsi af breska skólanum sem sækir margt til franska farsans sem sprettur frá ítalska comedie dell´arte og árhorfendur mega búast við hamagangi á Hóli.“

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri í lokin?
„Ég vil bara koma því á framfæri að Skagafjörður skartar mörgu hæfileikafólki á listasviðinu sem og öðrum sviðum sem snúa að því að koma leikriti á fjalirnar.“

Valgeiri er þakkað fyrir skemmtileg svör og honum óskað velfarnaðar fram að frumsýningu en fyrst þá fær hann leikhúskveðjuna: „poj, poj!“
/PF